Siðareglur

Tryggðarbönd ehf.


Tryggðarbönd ehf., kennitala 460606-0470, Kirkjubraut 2, 300 Akranesi, stofnað 6. júní 2006. Eigandi og framkvæmdastjóri er Hákon Svavarsson, kennitala 140567-5319, löggiltur fasteigna-, fyrirtækja- og skipasali. Stjórnarformaður er Svavar T. Óskarsson viðskiptastjóri, kennitala 201146-6589. Tryggðarbönd ehf. eiga og starfrækja fasteignasöluna Valfell.

Hlutverk Valfells er fasteignamiðlun, ráðgjöf og sala. Hlutverkinu fylgir mikil ábyrgð sem felst í því að tryggja hagsmuni seljenda og kaupenda í viðskiptum á grundvelli laga og reglna um fasteignaviðskipti.

Auk laga og reglna um fasteignaviðskipti setja Tryggðarbönd ehf. starfsemi Valfells siðareglur sem eigendum og starfsfólki Valfells ber að virða. Í siðarreglunum eru skilgreind gildi og háttsemi í samskiptum starfsfólks Valfells við viðskiptavini. Siðareglunum er ætlað að stuðla að upplýstum og heiðarlegum viðskiptaháttum sem viðskiptavinir geta treyst.

Siðareglur

Einkunnarorð

Heiðarleiki- Traust – Fagmennska

Samskipti við viðskiptavini

Fasteignasalan Valfell leggur áherslu á góð samskipti við viðskiptavinina. Gerðar eru strangar kröfur til starfsfólks um hæfni, hlutleysi og málefnalega afstöðu í starfi. Starfsfólki er skylt að gera sér góða grein fyrir þeim þáttum sem geta haft áhrif á hæfni þeirra í starfi og upplýsa yfirmenn ef vafi leikur á því. Kröfur um hæfni eru settar til þess að tryggja öllum hlutaðeigandi upplýst viðskipti sem byggð eru á óhlutdrægni og einkunnarorðum Valfells.
Starfsfólki Valfells, mökum þeirra og börnum, er ekki heimilt að stunda fasteignasölu í eigin nafni eða starfa hjá eða eiga aðild að öðrum fyrirtækjum sem stunda eða tengjast fasteignaviðskiptum með einhverjum hætti. Brot á þessu varða brottrekstri úr starfi.

Hæfi

Starfsfólk Valfells er vanhæft til þess að eiga aðild að ákvörðunum um fasteignaviðskipti á vegum Valfells, ef það hefur persónulegra hagsmuna að gæta sem kynnu að brjóta í bága við einkunnarorð Valfells eða gegn hagsmunum viðskiptavina. Það sama gildir um ákvarðanir sem tengjast fjölskyldu- eða venslafólki starfsfólks Valfells.

Gjafir og önnur framlög

Starfsfólk Valfells má ekki þiggja gjafir, þjónustu eða umboðslaun, eða veita slíku viðtöku fyrir aðra, ef hugsanlegt er að því sé ætlað að hafa áhrif, eða geti haft áhrif, á starfsemi Valfells eða frammistöðu starfsfólks.
Starfsfólki Valfells er óheimilt að þiggja sérstaka afslætti af vörum og þjónustu frá viðskiptavinum Valfells.


Þagnarskylda

Starfsfólk Valsfells er bundið þagnarskyldu um allt það sem það fær vitneskju um í starfi og ætla má að leynt eigi að fara samkvæmt lögum eða eðli máls. Þess ber ætíð að gæta að trúnaðarupplýsingum og upplýsingum sem þagnarskylda hvílir á sé ekki miðlað til fleiri aðila en brýna nauðsyn ber til. Stjórnendur Valfells skulu setja reglur um það hverjir hafi aðgang að trúnaðarupplýsingum og hvernig þeir miðla slíkum upplýsingum. Þagnarskylda helst þótt látið sé af starfi.

Samskipti við fjölmiðla

Eigendur Valfells koma fram fyrir hönd fyrirtækisins. Starfsfólk Valfells má ekki tjá sig um málefni viðskiptavina, málefni fyrirtækisins eða fasteignamarkaðinn sérstaklega.

Staðfesting

Starfsfólk Valfells staðfestir, með undirritun yfirlýsingar, að það hafi kynnt sér efni siðarreglna Valfells og skuldbindi sig til þess að hlíta siðareglunum og þeim viðurlögum sem varða brot á þeim.

Viðurlög

Brot á siðarreglum Valfells varða tafalausri brottvikningu úr starfi. Stjórn Tryggðarbanda ehf. ákveður viðurlög. Viðurlög fara eftir alvarleika brotsins og geta falist í áminningu eða varanlegum brottrekstri, nema lög kveði á um frekari málsmeðferð. Netfang eftirlitsnefndar félags fasteignasala er [email protected] telji viðskiptavinir sér þurfa frekari upplýsingar.

Siðareglur Valfells skulu vera opinberar og aðgengilegar viðskiptavinum Valfells.

Akranesi 1. janúar 2009,
Tryggðarbönd ehf.